Þjónandi forysta

Kynin eru almennt ólík að eðlisfari. Mismunandi hormón hafa áhrif á hvaða hlutar heilans í hverju kyni fyrir sig eru virkari en önnur. Við hugsum oft og leysum mál með mismunandi hætti eftir kynjum því styrkleikar okkar eru mismunandi. Við myndum alla jafna sambönd við okkar lífsförunauta út frá því hvernig við getum bætt hvert annað upp og virðumst oft dragast að andstæðum okkar. Tökum eftir hvernig hjón eru oft á tíðum ótrúlega ólík en samt samhent og farsæl í lífinu.
Leiðtoga þessa lands þyrfti að mínu mati að velja sem þverskurð af því samfélagi sem þeim er ætlað að leiða eða þjóna hverju sinni. Þannig ættum við að ná sem bestum árangri þegar kemur að því að velta upp öllum hliðum þeirra mála sem við erum að glíma við hverju sinni. Afdrifaríkar ákvarðanatökur sem snerta líf og afkomu fólks í landinu má ekki gjaldfella með því að velja í leiðtogahlutverkin einhæfar stereotýpur með sömu menntun, búsetu og uppruna.
Ég hef alla tíð aðhyllst þá aðferðarfræði, að leiðtogi þurfi að vera þjónn þeirra sem hann leiðir. Löngu áður en ég hafði heyrt um eða lesið mér til um þjónandi leiðtoga. Fyrst sem kennari, þar sem nemendur mínir og foreldrar voru þeir aðilar sem ég var að þjóna og síðar sem hótelstjóri.
Þar uppgötvaði ég fljótlega að þar sem ég gat ekki sjálf verið í öllum hlutverkum til lengdar þá yrði ég að þjóna mínu starfsfólki á þann hátt að þau hefðu þau tæki og tól sem þau þörfnuðust til að þjóna gestum hótelsins þannig að þeir færu ánægðir frá okkur. Einnig er það ótvírætt þannig að ánægður starfsmaður er mun hæfari til að veita betri þjónustu en ósáttur starfsmaður.
Sömu hugmyndafræði hef ég notað í sveitarstjórnarmálunum. Þeir sem veljast til forystu þurfa að mínu mati að vera tilbúnir að vera þjónar þess samfélags sem velur þá í það hlutverk ef vel á að vera. Það þýðir ekki það að slíkir leiðtogar verði þá eins og viljalaus verkfæri. Ákveðin framtíðarsýn og sterk gildi eru nauðsynlegt veganesti því ef þú ætlar að taka spor inn í framtíðina og ná fólkinu með þér, þá er eins gott að snúast ekki eins og skopparakringla eftir skoðunum síðasta ræðumanns. Á tímum þarf að taka erfiðar ákvarðanir en þá er eins gott að þær séu réttar fyrir heildina og skref í rétta átt þótt það komi ekki í ljós fyrr en seinna.
Alþingismaður þarf að vera tilbúinn til að slá vörð um fólkið og fyrirtækin í landinu og veita þeim þá þjónustu sem þau þurfa á að halda til að geta vaxið og lifað góðu lífi í þessu landi.
Ég tel mjög nauðsynlegt að koma hreint fram með skoðanir á umdeildum málaflokkum. Oft finnst mér eins og fólk veigri sér við að taka umræðuna ef skoðanir eru skiptar. Ég hef sjálf fallið í þá gryfju. En kjósendur eiga rétt á því að vita nákvæmlega fyrir hvað viðkomandi frambjóðendur standa, skoðanir þeirra og gildi. Ef við frambjóðendur, bjóðum uppá orðræðu sem við höldum að kjósendur vilji heyra í stað þess að koma hreint fram og bera það á borð sem kjósendur þurfa að heyra, þá erum við að svíkja þá.


ERTU MEÐ EÐA Á MÓTI HÁLENDISÞJÓÐGARÐI ?


Ég hef alla tíð heillast af þjóðgörðum og jarðvöngum og gert mér far um að heimsækja þá á ferðalögum mínum erlendis. Í mínum huga eru þessi svæði aðdráttarafl og umgjörð um einstaka náttúru og um leið ákveðin aðferð til að vernda ákveðnar náttúruperlur þannig að við getum stolt skilað þeim af okkur til næstu kynslóðar án kinnroða. Ég hef séð með eigin augum og upplifað hvað Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert fyrir lítið en landstórt sveitarfélag á síðustu árum og hvernig þau störf sem til falla nýtast ekki aðeins náttúrunni okkar heldur einnig samfélaginu. Því get ég engan vegin staðið gegn þessari stofnun: þjóðgarði.

Aftur á móti er ekki þar með sagt að hálendisfrumvarpið sem er nú komið í nefnd sé gallalaust. Ýmislegt mætti þar betur fara. Finnst samt vanta alvarlega uppá málefnanlega umræðu því hún er oft á tíðum upphrópanir og slagorð. Hálendið er ekki að fara neitt, enginn er að fara að loka neinu. Þjóðgarður í mínum huga á að byggja upp aðstöðu og aðgengi, hlúa að atvinnuuppbyggingu á nærsvæðum og færa opinber störf út á landsbyggðina.

Hef aðeins orðið vör við umræðu á þá leið að þjóðgarður myndi verða til þess að hálendið verði útvaðið af ferðamönnum svo ekkert verði við ráðið. Í mínum huga er þjóðgarður svar landsmanna við ferðamannastraumi sem annars veður út um allt. Höfum hingað til í ferðaþjónustunni verið að elta skottið á okkur og setja plástur á sárin eftir á, sem hafa myndast í náttúrunni við ágang ferðamanna. Með þjóðgarði á hálendinu myndum við allavega gera okkar til að stýra umferð frá viðkvæmustu svæðunum eða að öðrum kosti byggja upp aðgengi þannig að ekki sjái á náttúrunni. Geri mér mjög vel grein fyrir því að slíkt tekur tíma, en Róm var ekki byggð á einum degi.

Síðan er það samráðið við sveitarfélögin. Mér telst svo til að ég sem oddviti Skaftárhrepps hafi verið kölluð á samráðsfundi ca 5 sinnum á kjörtímabilinu um málefni miðhálendisþjóðgarðs. Þar höfum við getað komið okkar áhyggjum og ábendingum á framfæri. Getur vel verið að okkar áhyggjur af málefninu séu ekki jafnmiklar vegna samvinnu okkar við núverandi Vatnajökulsþjóðgarð og margra annarra sveitarfélaga en hvernig væri þá að fara þá leið að stjórnvöld tækju það sem fyrsta skref að bjóða sveitarfélögum i landinu uppá þann valkost að tilnefna það land innan sinna skipulagssvæða sem þau myndu gjarnan þyggja að yrði innan þjóðgarðs. Þannig kæmi reynsla á samstarfið og samtalið og myndaðist kannski traust milli aðila. Því trausti virðist ekki vera fyrir að fara miðað við umræðuna undanfarið ár.

Það er alveg augljóst í mínum huga að aðkoma frjálsra félagasamtaka sem koma inn í svæðisráð og stjórn með aðeins eitt markmið er og verður ekki ásættanlegt. Mér finnst svolítið verið að vega að lýðræðinu með því að verðfella þannig kjörna fulltrúa sem eru einmitt kosnir til að taka ákvarðanir með heildarhagsmuni allra aðila að leiðarljósi. Þetta er að koma í ljós nú á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem frjálsum félagasamtökum tókst að ná meirihluta og fella þar með ákvörðun Ásahrepps úr gildi að loka Vonarskarði fyrir akandi umferð yfir hásumarið. Með öðrum orðum, tóku skipulagsvaldið af Ásahreppi. Þessi niðurstaða verður ekki til að auka meðbyr með stofnun enn stærri þjóðgarðs sem á að styðjast við sama stjórnsýslufyrirkomulag og er í Vatnajökulsþjóðgarði. Það að fela frjálsum félagasamtökum slíkt vald er aðför að lýðræðinu í landinu. Þannig að kæru þingmenn, ef þið berið hag sveitarfélaganna fyrir brjósti. Vinnið þá að því að breyta þessu fyrirkomulagi.

Annað er, að það er hvergi grafið í stein að hið opinbera eða þjóðgarður í þessu tilfelli geti ekki samið við einkaaðila um umsjón, rekstur og utanumhald ákveðinna svæða innan þjóðgarðs. Í mínum huga þarf að skoða það sem vel er gert í dag innan hálendisins og semja við þá aðila sem eru að halda vel á spöðunum að halda því áfram. Einkaframtakið er sem betur fer ennþá við lýði í samfélaginu í dag. Þar liggur mikil verðmæta sköpun, og án þess værum við illa komin. Að þvi þarf að hlúa eins og kostur er eins og sveitarfélögin hafa verið að gera og njóta góðs af um allt land.

Þetta málefni er eitt af heitu eplunum í umræðu dagsins. Þingmenn hafa svolítið skautað framhjá málaflokknum og ekki tekið afstöðu með eða á móti. Veit að það vantar uppá það að tekið hafi verið fullt tillit til þverpólitísku nefndarinnar. Í öllum samningaviðræðum þarf auðvitað að fara bil beggja og komast að niðurstöðu sem, sem flestir geta fylkt sér á bak við.

Lög eru samt alltaf mannanna verk. Til þess er Alþingi, og einnig að skapa umgjörð utan um dýrmætustu auðlind okkar, sem er hálendið.


Hálendisþjóðgarður fyrir sveitarfélögin

Mikið er rætt um andstöðu sveitarfélaganna við nýtt frumvarp um hálendisþjóðgarð. Í fjölmiðlum er gagnrýni sveitarfélaganna við áform ríkisstjórnarinnar blásin upp og efasemdaraddir eru háværar og áberandi. Get ekki setið hjá lengur og tekið undir gagnrýnina með þögninni. Skaftárhreppur hefur ekki tekið afstöðu gegn hálendisþjóðgarði. Skoðanir eru svo sannarlega skiptar sem er eðlilegt en fullyrðingin að sveitarfélögin séu mótfallin hálendisþjóðgarði er röng. Við höfum áralanga reynslu af samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð í Skaftárhreppi. Tímabilið hefur einkennst af uppbyggingu innviða, nýsköpun í ferðaþjónustu og afleiddum störfum. Opinberum störfum hefur einnig fjölgað verulega. Ég sem oddviti sveitarfélags get því ekki með nokkru móti staðið gegn áformum ríkisstjórnarinnar um stofnun hálendisþjóðgarðs því mitt hlutverk sem sveitarstjórnarmanns er að hlúa að og styrkja atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Mikill samdráttur hefur orðið í tekjum sveitarfélaga eftir að covid skall á. Öll hafa sveitarfélögin þurft að laga áform sín að nýjum veruleika og skera niður framkvæmdir en í mismunandi mæli þó. Þau sveitarfélög sem reiða sig að miklu leyti á ferðaþjónustu hafa orðið einna verst úti. Hótel og veitingastaðir hafa þurft að loka, ásamt því að samdráttur hefur orðið í allri verslun og þjónustu. Búskapur á einnig undir högg að sækja eins og allur annar rekstur. Það munar um þær þúsundir ferðamanna sem á degi hverjum bætast við neytendur í okkar litlu samfélög á landsbyggðinni í venjulegu árferði. Sem ferðaþjónustuaðili langar mig einnig að leggja orð í belg. Viðkvæm eða sérstök svæði eru sannarlega mörg hver friðuð í mismunandi tilgangi og er það vel. Það sem þjóðgarður hefur fram yfir friðun eingöngu, er að með honum er ekki aðeins tryggð verndun á viðkvæmum náttúruperlum með stýringu, vöktun og uppbyggingu heldur einnig unnið með viðkomandi sveitarfélögum að atvinnusköpun og nýjum atvinnutækifærum. Yfirgnæfandi meirihluti erlendra ferðamanna koma til landsins til að upplifa þá ótrúlegu náttúru sem við höfum ennþá yfir að ráða. Með þjóðgarði erum við komin með tæki til að taka á móti öllum þeim fjölda sem hingað sækir í leit að einstakri náttúruupplifun, án þess að eiga á hættu að hálendið okkar og viðkvæmar náttúruperlur verði ferðamanninum að bráð. Sveitarfélögin í landinu eru enganvegin í stakk búin til að vakta og stýra umferð ferðamanna um hálendi íslands. Varðandi fjármögnunina þá langar mig að minna á að Róm var ekki byggð á einum degi og eins verður svona viðamikill þjóðgarður ekki rekinn á fullum afköstum með allri þeirri uppbyggingu sem hann þarfnast strax á fyrsta árinu. Ef vel á að vera þarf að vanda til verka og ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman að skipulagi og stjórnun. Hagræn áhrif þjóðgarðs er þekkt stærð víða um heim. Kannanir sýna að þjóðgarður getur gefið til baka margfalda þá upphæð sem sett er í stofnun og uppbyggingu hans. Því gefur auga leið að stærsti þjóðgarður Evrópu yrði ekki slæmt útspil fyrir ferðaþjónustuna og allar aðrar afleiddar atvinnugreinar á landsbyggðinni þegar heimsfaraldurinn rennur sitt skeið. Tökum ákvörðun um að leggja af stað í sameiginlega vegferð, að styðja við þann atvinnuveg sem á undir högg að sækja í dag. Hálendið okkar er fyrir ferðaþjónustuna eins og fiskimiðin fyrir sjávarútveginn. Þó það megi ýmislegt segja um ríkjandi fiskistjórnunarkerfi þá mótmælir því enginn að sameiginleg stjórnun er nauðsynleg ef á að viðhalda fiskistofnum okkar. Sama á við um sameiginleg verðmæti okkar á hálendinu. Þjóðgarður er ekki aðeins fyrir okkur heldur fyrir komandi kynslóðir að njóta og nýta. Allar fullyrðingar um bann við beit og öðrum nytjum eru úr lausu lofti gripnar. Þvert á móti er með frumvarpinu verið að tryggja beitarrétt og aðra hefðbundna nýtingu. Meðan það er tryggt að kjörnir fulltrúar hafa meirihluta í stjórn og svæðisráðum þurfa íbúar ekki að hafa áhyggjur. Við, kjörnir fulltrúar störfum í þjónustu við ykkur, íbúa landsins, sama hvort um er að ræða ríkið eða sveitarstjórnarstigið. Ef þið teljið að við séum ekki að sinna okkar störfum þá einfaldlega kjósið þið okkur út. Lýðveldið sér til þess að meirihlutinn ræður. Nú er það svo að sveitarfélögin bera ábyrgð á skipulagsgerð innan sinna sveitarfélagamarka. Því hlutverki munum við sinna áfram en með samvinnu við hitt stjórnsýslustigið þegar kemur inn fyrir þjóðlendumörk ef miðhálendisþjóðgarður verður að veruleika. Í frumvarpinu kemur fram að tekið verði tillit til þeirra skipulagsgerða sem fyrir eru. Á Suðurlandi eru 11 sveitarfélög að koma saman og vinna að svæðisskipulagi fyrir suðurhálendið. Þar mætast því mismunandi skoðanir og áherslur sem er nauðsynlegt að hafa ef skipulag á að endurspegla hagsmuni íbúa og annarra hagsmunaaðila. Þannig teljum við, sveitarfélögin á Suðurlandi, að með því að taka frumkvæði og hefja samtalið verðum við betur undirbúin til að standa á okkar réttindum og skyldum, ekki síður þegar kemur að því að setjast við borðið með ríkinu. Við erum nútíðin en verðum brátt fortíðin, því ber okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hlúa að því sem okkur var falið. Landinu okkar. Okkar hlutverk er að skapa tækifæri fyrir framtíðina. Ég ætla ekki að vera hluti af kynslóðinni sem verður dæmd fyrir sofandahátt og eyðileggja þannig óvart þau verðmæti sem við Íslendingar eigum mesta.


UMRÆÐA DAGSINS HAMLAR TJÁNINGARFRELSINU

Allt of oft finnst mér umræða dagsins litast af háværustu röddunum hverju sinni. Ótrúlega margir eru í alvöru tilbúnir til að nota ljót orð og innantóma frasa gagnvart aðilum sem deila ekki skoðunum þeirra. Hvort sem um er að ræða pólitískar skoðanir eða trúarlegar. Þegar ýjað er að því að umræðan sé orðin heldur óvægin er gripið til orða eins og þöggun og kúgun. Mig grunar að við kunnum oft ekki nógu vel að meta það lýðræði og það tjáningarfrelsi sem við búum við. Við tökum það sem sjálfsagðan hlut og gleymum oft að öllum réttindum fylgja skyldur. Við eigum rétt á því að tjá okkur en enginn gaf okkur rétt til að drulla yfir fólk. Við eigum rétt á því að hafa skoðanir á fólki og málefnum en enginn gaf okkur rétt til að lítillækka fólk og troða skoðunum okkar yfir á aðra. Tjáningarfrelsið okkar er dýrmætt. Ég held og trúi því staðfastlega að óvægin umræða hamli tjáningarfrelsinu. Mig grunar að oft á tíðum þá sé þögli meirihlutinn annarrar skoðunar en treystir sér ekki í slaginn því orðræðan er oft á tíðum óvægin og miskunnarlaus. Við erum flest okkar sem betur fer friðelskandi fólk sem vill lifa í sátt og samlyndi í góðum samfélögum sem þjappar sér saman þegar á bjátar. Frekar leiðinlegt samt þegar aðeins ein skoðun verður ráðandi í umræðunni því venjulegt fólk treystir sér ekki í skítkastið sem fer af stað þegar það tjáir sig. Ég vil búa í landi þar sem ríkir umburðarlyndi og skilningur gagnvart mismunandi skoðunum fólks. Þá held ég líka að við náum fram jafnrétti allra kynja og kynþátta. Hvers kyns mismunun er afurð fáfræði og hræðslu við hið óþekkta.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband