UMRÆÐA DAGSINS HAMLAR TJÁNINGARFRELSINU

Allt of oft finnst mér umræða dagsins litast af háværustu röddunum hverju sinni. Ótrúlega margir eru í alvöru tilbúnir til að nota ljót orð og innantóma frasa gagnvart aðilum sem deila ekki skoðunum þeirra. Hvort sem um er að ræða pólitískar skoðanir eða trúarlegar. Þegar ýjað er að því að umræðan sé orðin heldur óvægin er gripið til orða eins og þöggun og kúgun. Mig grunar að við kunnum oft ekki nógu vel að meta það lýðræði og það tjáningarfrelsi sem við búum við. Við tökum það sem sjálfsagðan hlut og gleymum oft að öllum réttindum fylgja skyldur. Við eigum rétt á því að tjá okkur en enginn gaf okkur rétt til að drulla yfir fólk. Við eigum rétt á því að hafa skoðanir á fólki og málefnum en enginn gaf okkur rétt til að lítillækka fólk og troða skoðunum okkar yfir á aðra. Tjáningarfrelsið okkar er dýrmætt. Ég held og trúi því staðfastlega að óvægin umræða hamli tjáningarfrelsinu. Mig grunar að oft á tíðum þá sé þögli meirihlutinn annarrar skoðunar en treystir sér ekki í slaginn því orðræðan er oft á tíðum óvægin og miskunnarlaus. Við erum flest okkar sem betur fer friðelskandi fólk sem vill lifa í sátt og samlyndi í góðum samfélögum sem þjappar sér saman þegar á bjátar. Frekar leiðinlegt samt þegar aðeins ein skoðun verður ráðandi í umræðunni því venjulegt fólk treystir sér ekki í skítkastið sem fer af stað þegar það tjáir sig. Ég vil búa í landi þar sem ríkir umburðarlyndi og skilningur gagnvart mismunandi skoðunum fólks. Þá held ég líka að við náum fram jafnrétti allra kynja og kynþátta. Hvers kyns mismunun er afurð fáfræði og hræðslu við hið óþekkta.


Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband