ERTU MEÐ EÐA Á MÓTI HÁLENDISÞJÓÐGARÐI ?


Ég hef alla tíð heillast af þjóðgörðum og jarðvöngum og gert mér far um að heimsækja þá á ferðalögum mínum erlendis. Í mínum huga eru þessi svæði aðdráttarafl og umgjörð um einstaka náttúru og um leið ákveðin aðferð til að vernda ákveðnar náttúruperlur þannig að við getum stolt skilað þeim af okkur til næstu kynslóðar án kinnroða. Ég hef séð með eigin augum og upplifað hvað Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert fyrir lítið en landstórt sveitarfélag á síðustu árum og hvernig þau störf sem til falla nýtast ekki aðeins náttúrunni okkar heldur einnig samfélaginu. Því get ég engan vegin staðið gegn þessari stofnun: þjóðgarði.

Aftur á móti er ekki þar með sagt að hálendisfrumvarpið sem er nú komið í nefnd sé gallalaust. Ýmislegt mætti þar betur fara. Finnst samt vanta alvarlega uppá málefnanlega umræðu því hún er oft á tíðum upphrópanir og slagorð. Hálendið er ekki að fara neitt, enginn er að fara að loka neinu. Þjóðgarður í mínum huga á að byggja upp aðstöðu og aðgengi, hlúa að atvinnuuppbyggingu á nærsvæðum og færa opinber störf út á landsbyggðina.

Hef aðeins orðið vör við umræðu á þá leið að þjóðgarður myndi verða til þess að hálendið verði útvaðið af ferðamönnum svo ekkert verði við ráðið. Í mínum huga er þjóðgarður svar landsmanna við ferðamannastraumi sem annars veður út um allt. Höfum hingað til í ferðaþjónustunni verið að elta skottið á okkur og setja plástur á sárin eftir á, sem hafa myndast í náttúrunni við ágang ferðamanna. Með þjóðgarði á hálendinu myndum við allavega gera okkar til að stýra umferð frá viðkvæmustu svæðunum eða að öðrum kosti byggja upp aðgengi þannig að ekki sjái á náttúrunni. Geri mér mjög vel grein fyrir því að slíkt tekur tíma, en Róm var ekki byggð á einum degi.

Síðan er það samráðið við sveitarfélögin. Mér telst svo til að ég sem oddviti Skaftárhrepps hafi verið kölluð á samráðsfundi ca 5 sinnum á kjörtímabilinu um málefni miðhálendisþjóðgarðs. Þar höfum við getað komið okkar áhyggjum og ábendingum á framfæri. Getur vel verið að okkar áhyggjur af málefninu séu ekki jafnmiklar vegna samvinnu okkar við núverandi Vatnajökulsþjóðgarð og margra annarra sveitarfélaga en hvernig væri þá að fara þá leið að stjórnvöld tækju það sem fyrsta skref að bjóða sveitarfélögum i landinu uppá þann valkost að tilnefna það land innan sinna skipulagssvæða sem þau myndu gjarnan þyggja að yrði innan þjóðgarðs. Þannig kæmi reynsla á samstarfið og samtalið og myndaðist kannski traust milli aðila. Því trausti virðist ekki vera fyrir að fara miðað við umræðuna undanfarið ár.

Það er alveg augljóst í mínum huga að aðkoma frjálsra félagasamtaka sem koma inn í svæðisráð og stjórn með aðeins eitt markmið er og verður ekki ásættanlegt. Mér finnst svolítið verið að vega að lýðræðinu með því að verðfella þannig kjörna fulltrúa sem eru einmitt kosnir til að taka ákvarðanir með heildarhagsmuni allra aðila að leiðarljósi. Þetta er að koma í ljós nú á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem frjálsum félagasamtökum tókst að ná meirihluta og fella þar með ákvörðun Ásahrepps úr gildi að loka Vonarskarði fyrir akandi umferð yfir hásumarið. Með öðrum orðum, tóku skipulagsvaldið af Ásahreppi. Þessi niðurstaða verður ekki til að auka meðbyr með stofnun enn stærri þjóðgarðs sem á að styðjast við sama stjórnsýslufyrirkomulag og er í Vatnajökulsþjóðgarði. Það að fela frjálsum félagasamtökum slíkt vald er aðför að lýðræðinu í landinu. Þannig að kæru þingmenn, ef þið berið hag sveitarfélaganna fyrir brjósti. Vinnið þá að því að breyta þessu fyrirkomulagi.

Annað er, að það er hvergi grafið í stein að hið opinbera eða þjóðgarður í þessu tilfelli geti ekki samið við einkaaðila um umsjón, rekstur og utanumhald ákveðinna svæða innan þjóðgarðs. Í mínum huga þarf að skoða það sem vel er gert í dag innan hálendisins og semja við þá aðila sem eru að halda vel á spöðunum að halda því áfram. Einkaframtakið er sem betur fer ennþá við lýði í samfélaginu í dag. Þar liggur mikil verðmæta sköpun, og án þess værum við illa komin. Að þvi þarf að hlúa eins og kostur er eins og sveitarfélögin hafa verið að gera og njóta góðs af um allt land.

Þetta málefni er eitt af heitu eplunum í umræðu dagsins. Þingmenn hafa svolítið skautað framhjá málaflokknum og ekki tekið afstöðu með eða á móti. Veit að það vantar uppá það að tekið hafi verið fullt tillit til þverpólitísku nefndarinnar. Í öllum samningaviðræðum þarf auðvitað að fara bil beggja og komast að niðurstöðu sem, sem flestir geta fylkt sér á bak við.

Lög eru samt alltaf mannanna verk. Til þess er Alþingi, og einnig að skapa umgjörð utan um dýrmætustu auðlind okkar, sem er hálendið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband